Loading

ISAVIA TRYGGIR 6,3 MILLJARÐA FJÁRMÖGNUN HJÁ EVRÓPSKA FJÁRFESTINGARBANKANUM

Direct News Source

Evrópski fjárfestingabankinn hefur samþykkt lánaádrátt Isavia upp á 40 milljónir evra sem samsvarar um 6,3 milljörðum króna. Um er að ræða lokaádrátt vegna láns upp á 100 milljónir evra sem bankinn veitti félaginu árið 2018 til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli. Þessi fjármögnun kemur til viðbótar við 4 milljarða sem íslenska ríkið hefur þegar lagt félaginu til í aukið hlutafé en þeir fjármunir voru skilyrtir við ákveðin fjárfestingaverkefni á Keflavíkurflugvelli. Samtals hefur félagið því tryggt sér yfir 10 milljarða króna í nýja fjármögnun frá því að flug til og frá Íslandi svo til lagðist af vegna Covid-19 faraldursins.

"Það er ánægjulegt að sjá Evrópska fjárfestingabankann koma með þessum hætti að fjármögnun áframhaldandi uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli á þessum óvissutímum" segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. "Þessi ákvörðun bankans sýnir vilja hans í verki til að koma með myndarlegum hætti að verkefnum sem styðja beint við endurreisn hagkerfisins".

"Það er okkur verulega mikilvægt að hafa náð þessu samkomulagi við bankann, sérstaklega í ljósi afar þröngrar stöðu í okkar umhverfi. Við höfum síðustu vikur og mánuði leitað allra leiða til að tryggja aðgang að fjármagni með það að markmiði að styðja við umsvif Isavia þar til sjóðsstreymi félagsins verður jákvætt á ný" segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. "Óvissan er engu að síður enn þá veruleg en þessi ákvörðun bankans gerir okkur kleift að halda verkefnum okkar gangandi enn um sinn og veitir okkur þannig mikilvægt svigrúm til áframhaldandi umsvifa."

This press release was sourced from Isavia on 19-May-2020.