Loading

Icelandair flytur yfir 300 þúsund farþega í einum mánuði í fyrsta sinn

Direct News Source

30-Jul-2013 Um hádegisbilið á morgun, miðvikudag 31. júlí, mun 300 þúsundasti farþegi Icelandair í júlímánuði stíga frá borði í einni af flugvélum félagsins. Þetta er í fyrsta sinn sem Icelandair flytur fleiri en 300 þúsund farþega í einum mánuði. Eldra metið var sett í júlímánuði í fyrra þegar félagið flutti 276.600 farþega. Þessi fjölgun er í samræmi við áætlanir félagsins, en gert er ráð fyrir að farþegar Icelandair verði um 2,3 milljónir í ár.

Samkvæmt áætlun flýgur Icelandair 1930 flug í júlí til alls 35 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku, eða að meðaltali 62 flug á sólarhring; 31 flug frá Keflavíkurflugvelli og 31 flug til Keflavíkurflugvallar. Það þýðir að um þessar mundir er Boeing 757 áætlunarflugvél Icelandair í flugtaki eða lendingu einhverstaðar í heiminum á rúmlega 11 mínútna fresti.

Farþegar Icelandair í júlí eru um 10 þúsund á sólarhring; erlendir ferðamenn í Íslandsferð, Íslendingar í ferðum til útlanda og farþegar í alþjóðaflugi á milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu á Íslandi.