Loading

Fyrsta Farþegaflug Rafmagnsflugvélar Á Íslandi

Direct News Source

Fyrsta Farþegaflug Rafmagnsflugvélar Á Íslandi

Það urðu tímamót í flugsög Íslands á Reykjavíkurflugvelli í dag þegar rafmagnsflugvél var í fyrsta skiptið flogið með farþega á Íslandi. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, voru fyrstu farþegarnir og flogið var með þau sitt í hvoru lagi og þar með stigin mikilvæg skref í orkuskiptum flugsamgangna.

Flugvélin sem ber skráninguna TF-KWH er tveggja sæta af gerðinni Pipistrel og er framleidd í Slóveníu. Hún er á stærð við þær vélar sem notaðar eru í flugkennslu hér á landi og er fyrsta rafdrifna flugvélin sem fær flughæfiskírteini á Íslandi.

Félagið Rafmagnsflug ehf. flutti rafmagnsflugvélina til landsins með það að markmiði að taka frumkvæði í orkuskiptum í flugi, þjálfa starfsfólk í þessari nýju tækni og kynna hana fyrir landsmönnum. Rafmagnsflug ehf. var stofnað af Matthíasi Sveinbjörnssyni og Friðriki Pálssyni í árslok 2021 en þeir hafa unnið að því síðastliðin þrjú ár að fá rafmagnsflugvélina til landsins.

Isavia er meðal helstu bakhjarla félagsins ásamt Icelandair, Landsvirkjun og Hótel Rangá. Aðrir bakhjarlar eru Landsbankinn, Flugskólinn Geirfugl, Flugskóli Reykjavíkur, Flugakademía Íslands, ásamt Matthíasi, Friðriki og Herjólfi Guðbjartssyni. Allt eru þetta fyrirtæki og einstaklingar sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að flýta orkuskiptum í flugi og kynna þær tækninýjungar sem unnið er að um þessar mundir. Samstarf milli hagaðila er lykilatriði þegar kemur að orkuskiptum og því er mikilvægt að stærstu bakhjarlarnir eru úr flugrekstri, flugvallarrekstri, orkuframleiðslu og ferðaþjónustu.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, flutti ávarp á viðburðinu fyrir hönd Isavia. Hún sagði að um þessar mundir væri rúm öld frá fyrsta flugi á Íslandi og enn og aftur væri verið að skrifa flugsögu landins í Vatnsmýrinni. Það væri Isavia mikil ánægja að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni. Stórt skref væri nú stigið í samgöngumálum og Ísland væri í góðri stöðu til að verða leiðandi í orkuskiptum í flugi.

This press release was sourced from Isavia on 23-Aug-2022.